Grindavík gerði enn eitt markalausa jafnteflið í Pepsi Max-deild karla í gær er liðið mætti Breiðablik.
Grindavík hefur staðið vaktina vel í vörninni í sumar en það gengur ansi illa að skora mörk.
Jafntefli gærdagsins var fimmta markalausa jafntefli liðsins í sumar sem er sturluð staðreynd.
Grindavík hefur fengið á sig fæst mörk í deildinni, aðeins tíu eftir 13 umferðir í sumar.
Liðið hefur þá einnig skorað fæst mörk eða átta talsins. Grindvíkingar sitja í 9. sætinu með 14 stig.
Aron Elís Þrándarson, leikmaður Aalesund í Noregi, tjáði sig um Grindavík á Twitter síðu sinni í gær.
Hann segir að það sé galið að verið sé að rukka stuðningsmenn liðsins fyrir svona frammistöðu trekk í trekk.
Að það sé verið að rukka inn á Grindavikurleiki er gjörsamlega galið. Fólk er bókstaflega að fá ekkert fyrir peninginn
— Aron Þrándarson (@aronthrandar) 22 July 2019