Stjórn Manchester City er ekki ánægð þessa stundina eftir framkomu neðrideildar liðsins Bury Town.
Bury hefur undanfarin ár notað æfingasvæði City á Carrington sem hefur sparað félaginu um 350 þúsund pund.
Bury hefur hins vegar ekki þótt sjá vel um svæðið og hefur umgengnin verið fyrir neðan allar hellur.
City hefur ófáum sinnum varað félagið við því að fara vel með svæðið en fékk nú loksins nóg.
Englandsmeistararnir hafa skipað Bury að finna sér nýtt æfingasvæði en smáliðið er í miklum fjárhagsvandræðum.
Bury var til að mynda í vandræðum með að borga leikmönnum og starfsfólki laun en þarf að finna sér nýtt æfingasvæði fyrir október.