Það voru fjölmargir Íslendingar í eldlínunni í Evrópu í dag en leikið var í deildum í Skandinavíu.
Það voru einnig íslensk mörk og eitt af þeim gerði Samúel Kári Friðjónsson en hann leikur með Viking.
Samúel skoraði eina mark Viking í 1-1 jafntefli við Mjondalen en Dagur Dan Þórhallsson var allan tímann á bekknum hjá heimaliðinu.
Hólmbert Aron Friðjónsson elskar að skora mörk og komst hann á blað fyrir lið Aalesund sem spilaði við Sandnes Ulf í næst efstu deild Noregs.
Hólmbert skoraði fyrsta markið í 3-1 sigri Aalesund en þeir Davíð Kristján Ólafsson, Daníel Leó Grétarsson og Aron Elís Þrándarson léku einnig með liðinu.
Arnór Smárason átti frábæran leik fyrir Lillestrom sem vann 4-0 sigur á Tromso. Arnór lék 60 mínútur í sigrinum og lagði upp fyrstu tvö mörk liðsins.
Kolbeinn Sigþórsson kom við sögu í Svíþjóð þar sem AIK og Malmö gerðu markalaust jafntefli. Kolbeinn kom inná á 74. mínútu og spilaði Arnór Ingvi Traustason allan leikinn fyrir Malmö.
Matthías Vilhjálmsson lék með liði Valerenga sem vann 4-1 sigur á Haugesund. Matthías lagði upp fyrsta mark leiksins.
Einn Íslendingur gerði svo tvennu en Aron Sigurðarson var frábær fyrir Start í næst efstu deild Noregs og gerði tvö í 3-1 útisigri á Tromsdalen.