Víðir Sigurðsson, blaðamaður Morgunblaðsins skrifar um áhyggjur af íslenska landsliðinu í fótbolta. Liðið mætir Albaníu í undankeppni EM á morgun.
Liðið mætir svo Tyrklandi á þriðjudag en ekki er uppselt á leikina, það er langt síðan að ekki var uppselt á keppnisleik hjá strákunum okkar, þjóðin hefur elskað þá í mörg ár.
Slæm úrslit síðasta árið virðast hafa orsakað það að áhuginn á liðinu er minni en áður, af því hefur Víðir áhyggjur.
,,Áhyggjur. Þetta er hálfgert lykilorð í aðdragandanum að landsleikjunum við Albaníu og Tyrkland í undankeppni EM karla í fótbolta sem fram fara á morgun og þriðjudag í Laugardal.
Áhyggjur yfir því að ekki verði uppselt. Í seinni tíð hefur Laugardalsvöllur verið troðfullur á flestum leikjum karlalandsliðsins, enda þótt ekki séu mörg ár síðan það þótti fínt að fá fimm til sex þúsund manns á landsleiki.,“ skrifar Víðir í Morgunblaðið í dag.
,,Áhyggjur yfir því að það verði erfitt að skora mörk í fjarveru Alfreðs Finnbogasonar og með Kolbein Sigþórsson og Jón Daða Böðvarsson nýstigna uppúr meiðslum.“
,,Áhyggjur yfir því að neistinn í landsliðsmönnunum okkar sé ekki lengur til staðar, þeir séu kannski orðnir saddir eftir að hafa komist bæði á EM og HM.“
,,Áhyggjur yfir því að landsliðið okkar sé að verða of gamalt og endurnýjunin of hæg.“
,,Eru þetta ekki óþarfa áhyggjur? Ég held að okkar menn séu klárir í slaginn. Þeir ætla sér á EM 2020 og sigur á morgun kæmi þeim betur á sporið. Og fyrir þá sem hafa áhyggjur af því hvort Laugardalsvöllurinn verði fullur eða ekki þá sér veðrið til þess að fylla hann endanlega á morgun og sigur í leiknum til að fylla hann á þriðjudag!“