Ein ótrúlegasta endurkoma í sögu fótboltans, átti sér stað á þriðudag þegar Liverpool vann 4-0 sigur á Barcelona. Eftir 3-0 tap í fyrri leiknum tókst Liverpool að komast í úrslit Meistaradeildarinnar.
Margir hrifust af þessari mögnuðu endurkomu og ekki síður helstu óvinir Liverpool, ef þannig má að orði komast. Guðmundur Hilmarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, styður Manchester United. Það eru erkifjendur Liverpool.
,,Ég er ekki stuðningsmaður Liverpool og lít reyndar á liðið sem mína erkióvini en ég gat ekki annað en hrifist af frammistöðu þess í leiknum gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Anfield í fyrrakvöld,“ skrifar þessi skemmtilegi blaðamaður í bakvörð dagsins, í Morgunblaðinu.
,,Liverpool pakkaði Spánarmeisturunum saman á mögnuðu Evrópukvöldi á Anfield og ég held svei mér þá að Messi og samherjar hans í Katalóníuliðinu hafi vanmetið andrúmsloftið á þessum sögufræga velli. Ég hef gríðarlega mikið álit á Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, klókindum hans og útgeislun og hversu tilbúnir leikmenn eru til að spila fyrir Þjóðverjann og félag sitt. Það gerði útslagið í þessum leik.“
,,Ég heyrði í gömlum leikmönnum Liverpool spjalla saman á Liverpool-sjónvarpsstöðinni eftir leikinn og þeir höfðu á orði að leikmenn Barcelona hefðu mætt inn í búningsklefann fyrir leikinn með hangandi haus þar sem værukærðin skein út úr andlitum þeirra. Þeir töldu formsatriði að gera út um einvígið með 3:0-forystu í farteskinu.“
Það var svo ljóst í gær að andstæðingar Liverpool verða Tottenham.
,,Liverpool mætir Tottenham í úrslitaleiknum á Wanda Metropolitano-vellinum í Madrid 1. júní en í ótrúlega dramatískum leik gegn Ajax í Amsterdam í gærkvöld tryggði Tottenham sér farseðilinn í úrslitaleikinn með sigurmarki á síðustu sekúndu leiksins. Ég ætla að spá Liverpool sigri og hver veit nema 29. eyðimerkurgöngu Liverpool í leit að Englandsmeistaratitlinum ljúki á sunnudaginn! Það er ekkert ómögulegt í þessari fallegustu og skemmtilegustu íþrótt í heimi!“