Það fór fram einn leikur í ensku úrvalsdeildinni á mánudag er Chelsea fékk lið Burnley í heimsókn.
Það var boðið upp á mjög fjörugan fyrri hálfleik þar sem fjögur mörk voru skoruð. Burnley tók forystuna er Jeff Hendrick skoraði með laglegu skoti sem Kepa Arrizabalaga réð ekki við. Það fylgdu svo tvö mörk frá Chelsea en þeir N’Golo Kante og Gonzalo Higuain komust báðir á blað.
Ashley Barnes tókst svo að jafna metin fyrir gestina og lauk fyrri hálfleik með 2-2 jafntefli. Chelsea var mikið með boltann að venju í seinni hálfleik en tókst ekki að bæta við og tapaði dýrmætum stigum í baráttunni um Meistaradeildarsæti.
Maurizo Sarri, þjálfari Chelsea var rekinn upp í stúku undir lok leiks. Hann var reiður á svip en ensk blöð segja að hann hafi verið kallaður ´shit Italian“ eða SkÍtali eins og blaðamaður ákvað að þýða þetta.
Nú hefur enska sambandið ákært Sarri og er afar líklegt að hann verði í banni gegn Manchester United á sunnudag.