Gordon Strachan hefur verið rekinn frá sjónvarpsstöðinni Sky Sports eftir ummæli sem hann lét falla á dögunum.
Strachan ræddi barnaníðinginn Adam Johnson sem er ný orðinn laus eftir þriggja ára fangelsisdóm fyrir að brjóta á 15 ára gamalli stúlku.
Undanfarið hafa svartir leikmenn orðið fyrir miklu kynþáttaníði á velli, bæði á Englandi og í öðrum löndum.
Nú er rætt hvernig á að refsa liðum fyrir hegðun stuðningsmanna og líkti Strachan þessum tveimur málum saman.
,,Ef hann snýr aftur á völlinn og fólk byrjar að kalla hann nöfnum, verðum við að taka á því máli eins og kynþáttaníðinu?“ sagði Strachan um Johnson.
,,Er allt í lagi að kalla hann illum nöfnum eftir að hann tók út sín þrjú ár – megum við leyfa því að gerast?“
Það varð allt vitlaust eftir þessi ummæli Strachan og hefur Sky nú ákveðið að losa sig við hann fyrir fullt og allt.
Strachan er 62 ára gamall en hann er fyrrum knattspyrnustjóri og var síðast landsliðsþjálfari Skotlands frá 2013 til 2017.