Jóhann Berg Guðmundsson lék rúmar tíu mínútur með Burnley er liðið vann afar mikilvægan sigur á Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Chris Wood, Ashley Westwood og Ashley Barnes sáu um að skora mörk Burnley í 1-3 sigri á útivelli. Sigurinn fer með Burnley í 36 stig og er liðið nú átta stigum frá Cardiff sem er í 18 sæti deildarinnar. Cardiff sækir Burnley heim um næstu helgi.
Burnley er þar með að tryggja veru sína í deild þeirra bestu, fjórða árið í röð. Jóhann Berg er að jafna sig af meiðslum, en hann hefur misst mikið úr á seinni hlutanum vegna meiðsla.
Leicester vann sannfærandi sigur á Huddersfield, Youri Tielemans og James Maddisson skoruðu eitt og Jamie Vardy gerði tvö í 1-4 sigri.
Luka Milivojevic tryggði svo Crystal Palace góðan sigur á útivelli gegn Newcastle, með marki úr vítaspyrnu.