Danny Rose, bakvörður enska landsliðsins og Tottenham hefur fengið nóg, hann hefur fengið nóg af því að kynþáttafordómar fái að lifa góðu lífi í knattspyrnuheiminum. Dökkir knattspyrnumenn hafa á síðustu vikum og mánuðum mátt þola mikið ofbeldi, eitthvað sem flestir vonuðust að væri á enda.
Rose og aðrir dökkir knattspyrnumenn í Englandi hafa fengið mikið meira en nóg af því hvernig UEFA og aðrir aðilar taka á málum.
,,Ég hef fengið nóg, þessa stundina hugsa ég bara um það, að ég á fimm eða sex ár eftir í fótbolta. Ég get ekki beðið eftir því að hætta,“ sagði Rose.
,,Þegar ég sé hvernig leiknum er stjórnað þessa dagana, þá vil ég bara losna út.“
,,Svona líður mér, ég ætla að reyna að njóta fótboltans síðustu árin, eins mikið og ég get. Það er svo mikil pólitík. Ég get ekki beðið eftir að losna út.“
Rose og aðrir dökkir leikmenn Englands fengu að finna fyrir fordómum í Svartfjallalandi á dögunum, hann var meðvitaður um að þetta gæti komið upp.
,,Ég taldi góðar líkur á að þetta myndi gerast aftur, ég var undir þetta búinn. Ég hafði upplifað sömu aðstæður í Serbíu.“
,,Þetta er sorglegt, þegar þjóðir fá sekt sem er svipuð upphæð og ég eyði á einu kvöldi í London, við hverju býst fólk? Þegar þetta er nánast ekki nein refsing, við hverju býst fólk?.“