Manchester United tapaði mikilvægum stigum í ensku úrvalsdeildinni í gær er liðið mætti Wolves.
United komst yfir snemma leiks er Scott McTominay skoraði með fínu skoti fyrir utan teig á 13. mínútu. Diogo Jota jafnaði svo metin fyrir Wolves á 25. mínútu og var staðan jöfn eftir fyrri hálfleikinn.
Það var svo Chris Smalling sem skoraði síðasta markið á Molineux en hann varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 77. mínútu. United spilaði með tíu menn lengi vel í seinni hálfleik en Ashley Young fékk rautt spjald á 57. mínútu og var rekinn af velli.
Það sem vakti mikla athygli undir lok leiksins var þegar myndavélin var á Marcos Rojo og Sergio Romero, leikmönnum United. Lið þeirra var að tapa en það truflaði þá félaga ekki neitt.
Þeir félagar sátu fyrir aftan Ole Gunnar Solskjær, hlógu og gerðu grín í hvor öðrum. Þetta fer ekki vel í flesta stuðningsmenn United, sem vilja sjá strákana frá Argentínu fá sparkið.
,,Drullist í burtu frá félaginu mínu,“ skrifar einn reiður stuðningsmaður United og fleiri taka undir.