Moise Kean, var á skotskónum fyrir Juventus í gær þegar liðið vann sigur á Cagliari á Ítalíu.
Þegar þessi efnilegi piltur fagnaði marki sínu, fékk hann gusu af kynþáttafordómum yfir sig.
Það er slæm staða sem fótboltinn er í þessa dagana, þar sem kynþáttaníð virðist vera að aukast.
Leonardo Bonucci, reyndur liðsfélagi Kean vill samt kenna honum um hvernig fór.
,,Kean veit að þegar hann skorar mark, þá á hann að fagna með liðsfélögum sínum. Hann veit að hann hefði getað gert þetta öðruvísi,“ sagði Bonucci.
,,Það kom kynþáttaníð eftir fagnið,“ sagði Bonucci en Kean horfði upp í stúkuna og rétti hendur sínar út.
,,Þetta er bæði Kean og stuðningsmönnum að kenna, Kean hefði getað gert hlutina öðruvísi og stuðningsmennirnir einnig.“
,,Við erum atvinnumenn, við eigum ekki að pirra neinn með hegðun okkar.“