Það verður slegist um Philippe Coutinho, leikmann Barcelona í sumar, ef hann verður til sölu. Þetta segja spænsk blöð.
Þannig er framtíð Coutinho í óvissu, hann hefur ekki staðið undir væntingum frá því að hann kom frá Liverpool á síðasta ári.
Miklar kröfur eru gerðar á Coutinho, sem er dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins. Barcelona er sagt skoða það að selja hann, til að fjármagna önnur kaup og það eru stórlið sem hafa áhuga á að krækja í hann.
Þannig er PSG sagt skoða það hvort félagið geti fjármagnað kaup á Coutinho, það myndi gleðja Neymar að fá Coutinho til Parísar. Manchester United er sagt hafa áhuga á að fá Coutinho og sömu sögu er að segja af Chelsea.
Spænskir miðlar velta því nú fyrir sér hvort húsið sem Coutinho keypti, sé ástæða þess að lítið gengur hjá honum. Coutinho býr í Castelldefels sem er úthverfi Barcelona.
Húsið er að fá stimpil á sig fyrir að hýsa leikmenn sem ekkert gera fyrir Barcelona. Þannig bjó Cesc Fabregas í húsinu.
Thomas Vermaelan bjó einnig í húsinu og sömu sögu er að segja af Andre Gomes, báðir hafa ekkert gert fyrir Barcelona.