Maurizio Sarri, stjóri Chelsea, slökkti á sjónvarpinu eftir 20 mínútur er hann horfði á leik enska landsliðsins við Tékkland.
Callum Hudson-Odoi, efnilegur leikmaður Chelsea, fékk að spila sinn fyrsta landsleik er England vann 5-0 sigur.
Það er gríðarlega stór áfangi fyrir þennan 18 ára gamla leikmann sem fær takmarkað að spila undir Sarri hjá Chelsea.
Ítalinn hafði ekki tíma til að horfa á alla landsleikina og var ekki með stillt á leik enska liðsins lengi.
,,Nei ég horfði bara á 20 mínútur því það voru 14 leikmenn að spila með landsliðinu og ég gat ekki horft á 20 leiki,“ sagði Sarri.
,,Ég horfði á England í 20 mínútur. Hann byrjaði ekki of vel á hægri vængnum en gerði mjög vel á þeim vinstri. Ég veit að hann vill frekar spila vinstra megin.“