Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi oddviti VG í borgarstjórn, segist enga samúð hafa með Skúla Mogensen og virðist segja að það sé karlmennsku að kenna að flugvélagið WOW Air hafi farið í þrot.
Sóley tjáði sig um málið á eigin Twitter síðu þar sem hún gefur í skyn að fall félagsins sé karlmennsku að kenna.
„Ég hef hvorki samúð né húmor fyrir körlum með ofvaxin egó og ótakmarkaða möguleika á að ógna stöðugleika og velferð okkar hinna. #karlmennskan #wow,“ skrifaði Sóley á Twitter.
Þessi ummæli hennar vöktu verðskuldaða athygli og fékk hún ófá svör til baka við færslunni þar sem fólk var ýmist sammála eða ósammála.
Theodór Elmar Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er ekki þekktur fyrir það að liggja á sínum skoðunum.
Elmar sá þessi ummæli Sóleyjar og gagnrýnir hana hressilega á sinni Twitter síðu.
,,Það er að stórum hluta fólki eins og Sóley T að kenna að jafn fáir og raun ber vitni vilja láta kalla sig femínista,“ skrifar Elmar og heldur áfram:
,,Það ættu allir að geta stoltir sagst vera femínistar, en orðspor málstaðarins er gjarnan eyðilagður af svona öfgafólki, synd.“
Twitter notandinn Harpa Júlíusdóttir svaraði færslu Elmars: ,,Þú býrð held ég í smá bergmálshelli ef þú heldur að fáir kallir sig femínista.“
Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson eða Simmi Vill var á meðal þeirra sem gagnrýndu einnig skrif Sóleyjar á sinni Facebook síðu.
,,Þegar Sóley Tómasdóttir fer fram með þessum hætti, þá er hún að niðurlægja sjálfa sig og allan málstaðinn sem hún stendur fyrir. Það að snúa þessum upp í kynjafræði og persónugera 1400 manna fyrirtæki í einum manni er í besta falli fáfræði,“ skrifaði Sigmar.
Það er að stórum hluta fólki eins og Sóley T. að kenna að jafn fáir og raun ber vitni vilja láta kalla sig femínista.
Það ættu allir að geta stoltir sagst vera femínistar, en orðspor málstaðarins er gjarnan eyðilagður af svona öfgafólki, synd.— Elmar Bjarnason (@ElmarBjarnason) 29 March 2019