Ole Gunnar Solskjær var í gær ráðinn endanlegur stjóri Manchester United til þriggja ára.
Solskjær tók við liði United í desember en hann hafði áður starfað hjá liði Molde í heimalandinu, Noregi.
Samkvæmt fregnum þá hefur Solskjær sent leikmönnum sínum skýr skilaboð fyrir næstu leiktíð.
The Sun og the Telegraph greina frá því að Solskjær hafi haldið fund með leikmönnum og rætt markmiðin fyrir næsta ár.
Norðmaðurinn heimtar það að leikmenn liðsins vinni titilinn á næstu leiktíð frekar en að sætta sig við Meistaradeildarsæti.
Ef það gengur ekki upp verða gerðar margar breytingar á leikmannahópnum en Solskjær hefur enn trú á fjölmörgum sem eru hjá félaginu í dag.
Þrátt fyrir það mun hann líklega fá stuðning í sumarglugganum og getur fengið inn nokkra öfluga til að styrkja mannskapinn.