Hörður Snævar Jónsson skrifar frá Peralada á Spáni:
Íslenska landsliðið æfði í annað sinn í Katalóníu nú í morgun en leikmenn liðsins komu saman í gær. Undirbúningur fyrir undankeppni EM er í fullum gangi.
Liðið æfir í Peralada á Spáni í dag og á morgun og heldur síðan til Andorra snemma á fimmtudag, þar er leikur gegn heimamönnum á föstudag.
Alfreð Finnbogason er einn af þeim sem er í hópnum, hann er mættur aftur eftir meiðsli. Alfreð snéi til baka um liðna helgi með Augsburg og er mættur í verkefni landsliðsins.
Alfreð á bara rúmt ár eftir af samingi sínum við Augsburg en þær viðræður hafa verið settar á ís. ,,Eins og staðan er núna, þá höfum við sett allt á ís,“ sagði Alfreð við 433.is en ástæðan er skiljanleg.
Augburg er að berjast fyrir lífi sínu í þýsku úrvalsdeildinni. ,,Þangað til að við höfum tryggt okkur í deildinni, þangað til að við erum í hættu á að fara niður, það vill enginn og maður vill helst ekki ræða það.“
,,Við höfum sett viðræður til hliðar á meðan við erum í þessari stöðu.“