Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, er ekki ánægður með leikjaálagið sem hans menn þurfa að sætta sig við þessa dagana.
Liverpool vann 4-2 sigur á Burnley í ensku úrvalsdeildinni í dag en mætir svo Bayern Munchen í Meistaradeildinni á miðvikudag.
Klopp skilur ekki af hverju leikurinn fer fram á sunnudegi frekar en á laugardegi.
,,Ég held að það sé enginn hjá úrvalsdeildinni sem hugsar um þetta. Þeir hafa ekki áhuga á þessu,“ sagði Klopp.
,,Auðvitað er munur á að spila á laugardegi og sunnudegi. Ef við hefðum þrjá frídaga þá myndum við jafna okkur á sunnudeginum.“
,,Á mánudeginum geturðu æft aðeins, á þriðjudaginn er alvöru æfing og svo er leikur á miðvikudag.“
,,Það er sunnudagur í dag svo við jöfnum okkur á mánudaginn og svo er einhver æfing á þriðjudag.“
,,Þú æfir vanalega á vellinum svo það er ekkert sem þú getur gert. Þetta er öðruvísi staða.“
,,Fólk telur að við séum að leita að afsökunum, það er ekki rétt. Við samþykkjum þetta en einhver þarf að hugsa út í þetta. Einhver sem tekur ákvarðanir.“
,,Ég veit ekki af hverju við erum að spila við Burnley í hádeginu á sunnudegi, frekar en á laugardeginum klukkan þrjú. Þið verðið að spyrja BT Sport.“