Arsenal 2-0 Manchester United
1-0 Granit Xhaka(12′)
2-0 Pierre-Emerick Aubameyang(69′)
Það fór fram stórleikur í ensku úrvalsdeildinni í dag er lið Manchester United heimsótti Arsenal á Emirates í London.
United var einu stigi á undan Arsenal í töflunni fyrir leikinn en bæði lið berjast um Meistaradeildarsæti.
Fjörið byrjaði snemma leiks er Granit Xhaka kom Arsenal yfir með skoti fyrir utan teig.
Það var mikill vindur í London í dag og misreiknaði David de Gea skot Xhaka sem hafnaði í netinu.
Arsenal bætti svo við öðru marki sínu í seinni hálfleik er Jon Moss dæmdi vítaspyrnu.
Fred, miðjumaður United, var dæmdur brotlegur innan teigs er Alexandre Lacazette féll eftir þó litla snertingu.
Pierre-Emerick Aubameyang steig á punktinn og skoraði örugglega framhjá De Gea.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og er Arsenal nú í fjórða sætinu, tveimur stigum á undan United. Þetta var fyrsta tap United í deildinni undir Ole Gunnar Solskjær.