Manchester United er komið áfram í Meistaradeild Evrópu eftir leik við frönsku meistarana Paris Saint-Germain í fyrradag. Um var að ræða seinni leik liðanna en United tapaði fyrri leiknum 2-0 á sínum heimavelli, Old Trafford. Það var boðið upp á skemmtilegan leik í Frakklandi þar sem United hafði betur með þremur mörkum gegn einu.
Romelu Lukaku var heitur í leiknum og skoraði tvö mörk fyrir gestina í fyrri hálfleik. Juan Bernat skoraði þó einnig fyrir PSG en staðan var 2-1 eftir fyrstu 45.
Á 90. mínútu leiksins þá fékk United svo vítaspyrnu en Presnel Kimbempe fékk þá knöttinn í höndina innan teigs og steig Marcus Rashford á punktinn. Rashford skoraði af miklu öryggi framhjá Gianluigi Buffon í markinu og tryggði United 3-1 sigur og fer liðið því áfram á mörgkum skoruðum á útivelli.
Vítaspyrnan var dæmd eftir að VAR kom til sögunnar, Damir Skomina, dómari leiksins ætlaði ekkert að dæma fyrst um sinn. Hann skoðaði svo atvikið á myndbandi og dæmdi spyrnuna.
Dómurinn hefur vakið hörð viðbrögð, ekki eru allir sammála um hann. UEFA hefur vegna þess sent frá sér yfirlýsingu. ,,Hönd varnarmannsins var ekki nálægt líkamanum, þetta gerði líkama hans stærri og þess vegna stöðvaðist boltinn þegar hann var á leið á markið. Vegna þess var dæmd vítaspyrna.“
Yfirlýsing UEFA er hér að neðan.