Stuðningsmaður Manchester United hefur þurft að berjast fyrir lífi sínu síðasta rúma sólarhringinn, hann var að fagna fræknum sigri liðsins á PSG á miðvikudag.
Eftir leikinn var þessi 44 ára karlmaður að taka leigubíl ásamt þremur öðrum stuðningsmönnum.
Eftir endurkomu United sem fáir trúðu á voru stuðningsmennirnir í stuði, þeir voru að syngja lög en leigubílstjórinn er stuðningsmaður PSG.
Honum var ekki skemmt yfir þessu, maðurinn sem var stunginn var að reyna að bjarga félögum sínum og þá sérstaklega konu sem var með í för.
Leigubílstjórinn stöðvaði bíl sinn og tók upp stóran hníf sem hann ógnaði fólkinu með, hann stakk að lokum hinn 44 ára gamla karlmann.
Fórnarlambið fór á spítala og var í lífshættu en aðgerð á spítala í París virðist hafa bjargað honum. Vinir hans hafa tjáð sig við fjölmiðla og segja hann á góðum batavegi.