,,Núna er ég orðinn 100 kíló, meira álag á draslið,“ sagði Sigurður Hlöðversson, oftast kallaður Siggi Hlö, á Bylgjunni í morgun.
Sigurður var þá á leið upp á sjúkrahús, hann slasaði sig á heimili sínu í gær fyrir framan sjónvarpið. Siggi var að horfa á leik PSG og Manchester United í Meistaradeild Evrópu, hann er stuðningsmaður United.
Siggi er einn af harðari stuðningsmönnum United hér á landi og ótrúleg endurkoma United í gær varð til þess að Siggi slasaði sig.
,,Ég sat einn fram í stofu, konan nennti ekki látunum í mér. Þegar gæinn er að fara dæma vítaspyrnu, þá gjörsamlega truflast ég. Ég hleyp um stofuna og hoppa og skoppa,“ sagði Siggi á Bylgjunni en United tryggði sér sigur í einvíginu gegn PSG með umdeildri vítaspyrnu undir lok leiksins.
,,Þegar Rashford skorar úr vítinu þá kemur konan fram og gefur mér „high-five“, um leið og ég hoppa þá heyri ég bara „púff“, ég lendi og ég hef ekki getað stigið í löppina síðan.“
,,Ég slasaðist í fagninu, þetta er inni í kálfanum, það er eins og hann hafi rifnað í sundur. Ég er á leiðinni upp á spítala núna, ég er af þeirri kynslóð úr Breiðholti þar sem er bara sagt ´Hættu þessu væli´.“