Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, leitar nú að húsnæði en hann verður samkvæmt miðlum ráðinn endanlegur stjóri liðsins í sumar.
Solskjær hefur undanfarnar vikur búið á Lowry hótelinu í Manchester en hann sneri aftur til Englands í desember.
Solskjær á hús í Cheshire, nálægt Manchester en Virgil van Dijk, leikmaður Liverpool, býr nú í því húsi.
Van Dijk er að leigja það húsnæði af Solskjær en hann þurfti að flytja í janúar á síðasta ári eftir að hafa skipt úr Southampton í Liverpool.
Solskjær hefur reynt að selja húsið í dágóðan tíma en það skilaði litlum árangri og fékk Van Dijk grænt ljós á að flytja inn.
Það leit aldrei út fyrir að Solskjær væri á leið aftur til Manchester fyrr en óvænt í desember. Hann hafði stýrt Molde í heimalandi sínu, Noregi.
Hann getur því ekki flutt ‘heim til sín’ að svo stöddu og leitar að húsi sem myndi henta honum og hans fjölskyldu.
Solskjær bjó í þessu húsi á meðan hann lék með United frá 1996 til 2007 áður en hann flutti til Noregs.