Það var boðið upp á fjörugan leik á Goodison Park í gær þegar Liverpool heimsótti Everton og var ekkert gefið eftir í skemmtilegum grannaslag. Bæði lið fengu færi til að skora í gær og þá sérstaklega Mohamed Salah sem var ekki heitur fyrir framan markið. Því miður fyrir áhorfendur komu mörkin ekki en það vantaði þó alls ekki færin.
Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn fyrir heimamenn í Everton og stóð sig vel á miðjunni.
Manchester City vann sigur á Bournemouth um helgina og er nú komið á topp deildarinnar, munar einu stigi á toppliðunum og níu leikir eru eftir, 27 stig í pottinum.
Sumir hafa teiknað þessi úrslit upp sem slæmt högg fyrir Liverpool, liðið hafði sem dæmi fimm stiga forskot á City í byrjun febrúar. Það hefur því hallð undan fæti hjá lærisveinum Jurgen Klopp
„Þetta er ennþá alvöru titilbarátta. Það eru níu leikir eftir og City á eftir að fara á Old Trafford. Það er hellingur eftir í þessu,“ sagði Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur Í Messunni á Stöð2 Sport.
Hjörvar sagði að það væri bara allt í góðu hjá Liverpool að sækja tvö stig á tvo erfiða útivelli í síðustu leikjum.
„Í eðlilegu árferði þá er bara stig á Goodison Park og stig á Old Trafford bara flott. Þetta er enginn heimsendir fyrir Liverpool,“ sagði Hjörvar.