Tottenham 1-1 Arsenal
0-1 Aaron Ramsey(16′)
1-1 Harry Kane(víti, 74′)
Það var boðið upp á jafntefli á Wembley í dag er lið Tottenham og Arsenal áttust við.
Um var að ræða grannaslag af bestu gerð en leiknum lauk með 1-1 jafntefli að þessu sinni.
Aaron Ramsey kom Arsenal yfir snemma leiks en hann skoraði eftir 16 mínútur fyrir gestina.
Staðan var 1-0 þar til á 74. mínútu leiksins er Shkodran Mustafi braut klaufalega af sér innan teigs.
Anthony Taylor flautaði og dæmdi vítaspyrnu fyrir Tottenham sem Harry Kane skoraði úr.
Arsenal fékk svo gullið tækifæri til að tryggja sér þrjú stig undir lokin en Pierre-Emerick Aubameyang klikkaði þá á vítapunktinum fyrir gestina.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og eru liðin nú í þriðja og fjórða sæti deildarinnar en þrjú stig skilja þau að.