Enski boltinn er nokkurs konar sófaþjóðaríþrótt Íslendinga. Fáar ef nokkrar þjóðir hafa meiri áhuga á bresku boltasparki og flestir eiga sitt lið sem þeir styðja fram í rauðan dauðann.
DV tók hús á nokkrum gallhörðum stuðningsmönnum og spurði þá hvernig þeim litist á tímabilið sem nú er í gangi.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG styður Liverpool en ástæða þess að hún hætti eð halda með Manchester United er mjög áhugaverð.
„Einu sinni gældi ég við að halda með Manchester United á meðan ég bjó þar um skeið. Ég hætti þeim pælingum þó snarlega eftir að ég prófaði sömu sólbaðsstofu og David Beckham,“ sagði Líf.
Líf er bjartsýn á að Liverpool verði loks enskur meistari í lok tímabils.
,,Núna held ég með Liverpool og hef gert það í gegnum súrt og sætt. Núna er aldeilis góður tími fyrir okkur. Við erum með gott forskot og höfum alla burði til að halda áfram þessari sigurgöngu þótt tímabilið sé langt og allt geti gerst. Mér finnst hins vegar kominn tími á sigur og ég held að Klopp og allir Púlarar geti tekið undir það.“