Manchester City heimsótti Burnley í dag í ensku úrvalsdeildinni en Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn hjá Burnley.
City hefur oft spilað betur en sömu sögu er að segja af Burnley sem hefur eftir leikinn ekki unnið í síðustu níu deildarleikjum. Danilo skoraði fyrra mark leiksins á 22 mínútu en það kom eftir stutta hornspyrnu. Boltinn kom út til Danilo sem var fyrir utan teiginn, bakvörðurinn hamraði honum upp í hægra hornið. Óverjandi fyrir Nick Pope í marki Burnley.
Bæði lið fengu góð færi til að skora í síðari hálfleik og átti Jóhann Berg nokkrar öflugar fyrirgjafir sem samherjar hans nýttu sér ekki. Það var svo á 82 mínútu leiksins sem Jóhann Berg tryggði Burnley gott stig. Hann mætti á fjærstöngina og kláraði vel framhjá Ederson í marki City.
Skömmu áður en Jóhann skoraði fékk Raheem Sterling rosalegt færi til að skora en klikkaði, hann var tekinn af velli skömmu síðar.
,,Svona er fótboltinn, næsta dag mun Sterling skora úr svona færi. Hann hefur skorað sigurmörk fyrir okkur undir lok leikja, hann klikkaði á einu færi og það getur gerst,“ sagði Pep Guardiola stjóri City.
,,Ég tók hann ekki af velli út af því að hann klikkaði á færinu.“