Chelsea tók á móti Bournemouth í ensku úrvaldeildinni í kvöld en leiknum lauk með 3-0 sigri gestanna.
Það voru þeir Callum Wilson, Junior Stanislas og Nathan Ake sem skoruðu mörk gestanna í kvöld en þau komu öll í síðari hálfleik.
Antonio Conte, stjóri Chelsea var vægast sagt pirraður í leikslok.
„Þeir áttu sigurinn skilið og ég segi það í hreinskilni. Við vorum í vandræðum allan leikinn, líka í fyrri hálfleik þegar staðan var markalaus,“ sagði stjórinn.
„Við vorum í vandræðum og það eru margar ástæður fyrir því. Núna þurfum við að byrja upp á nýtt.“
„Þetta voru slæm úrslit og við sættum okkur við það. Knattspyrna er flókin íþrótt, við þurfum að halda áfram að berjast og ná í þau stig sem í boði eru,“ sagði hann að lokum.