Joey Barton er reglulegur gestur í morgunþætti Alan Brazil á útvarpsstöðinni TalkSport.
Barton er ekki feiminn við að segja sína skoðun á málunum og hefur oftar en ekki reitt menn til reiði með ummælum sínum.
Hann skildi ekkert í því af hverju Mousa Dembele, miðjumaður Tottenham væri ekki í franska landsliðinu á dögunum en Dembele er frá Belgíu.
„Hann er frábær leikmaður. Hann mætti skora meira en hlutverk hans er fyrst og fremst að verjast og koma boltanum á menn sem geta búið eitthvað til,“ sagði Barton.
„Hann er ótrúlega rólegur á boltanum en hann á ekki neina landsleiki með Frökkum? Hann á að fara með Frökkum á HM, það er klárt mál.“
Barton var svo bent á það að hann væri frá Belgíu af framleiðanda þáttarins og var fljótur að leiðrétta sjálfan sig.
„Afsakið, hann er frá Belgíu. Hvað er ég að bulla. Það er til of mikið af leikmönnum sem heita Dembele,“ sagði hann að lokum.