Tottenham tók á móti Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í gær en leiknum lauk með 2-0 sigri heimamanna.
Það var Christian Eriksen sem kom Tottenham yfir í upphafi leiks og Phil Jones skoraði svo sjálfsmark um miðjan fyrri hálfleikinn og niðurstaðan því 2-0 sigur Tottenham.
Rio Ferdinand, fyrrum varnarmaður Manchester United gerði upp leikinn í myndveri og lét Romelu Lukaku, framherja liðsins heyra það.
„Harry Kane sýndi í leiknum af hverju hann er besti framherjinn í þessari deild, hann fór illa með miðverði United hvað eftir annað í leiknum,“ sagði Ferdinand.
„Hann var miklu sterkari en þeir og hélt boltanum og kom honum svo á samherja sína. Það var ótrúlegt að horfa á þennan leik og bera saman Kane og Lukaku, munurinn á þeim tveimur var stjarnfræðilegur.“
„Hann fékk boltann, hélt varnarmönnunum frá sér og kom honum svo í spil og fann liðsfélega sína. Það er það sem alvöru nía á að gera,“ sagði Ferdinand að lokum.