Tottenham tók á móti Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld en leiknum lauk með 2-0 sigri heimamanna.
Það var Christian Eriksen sem kom Tottenham yfir í upphafi leiks og Phil Jones skoraði svo sjálfsmark um miðjan fyrri hálfleikinn og niðurstaðan því 2-0 sigur Tottenham.
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham var að vonum sáttur með sigur sinna manna í kvöld.
„Ég er mjög sáttur og ég verð að hrósa leikmönnum mínum, þetta var frábær frammistaða,“ sagði stjórinn.
„Við reynum alltaf að byrja leikina vel. Það skiptir máli að skora snemma og við reynum að gera það í öllum leikjum.“
„Við erum í góðum málum núna eftir þennan sigur og það er ekki langt í efstu fjögur liðin. Við erum með í baráttunni,“ sagði hann að lokum.