Hlaðvarpsþátturinn, 90 mínútur hefur hafið göngu sína en um er að ræða þátt sem Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is stýrir.
Rætt verður um fótbolta við áhugaverða gesti í vetur, farið verður um víðan völl.
Fyrsti gestur þáttarins er Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins og fyrrum þjálfari kvennalandsliðsins.
Freyr ræðir á meðal annars um tímann er hann var beðinn um að taka við kvennalandsliðinu en hann þjálfaði þá Leikni Reykjavík.
Freyr hafði engan áhuga á að yfirgefa Leikni en svo reyndist það möguleiki að þjálfa bæði lið á sama tíma. Hann hikaði við að taka boðinu í byrjun.
,,Ég hikaði af því ég var ekki tilbúinn að hætta með Leikni. Þegar sá vinkill kemur upp að ég geti verið með bæði liðin og konan mín samþykkir það. Við gerðum okkur enga grein fyrir því hvað ég var að fara að gera. Þá var ég mjög spenntur fyrir því og sé ekki eftir því. Þessi ár með Leikni og kvennalandsliðið voru bilun en konan mín er einstök, hvernig hún þoldi þetta.“
,,Ég ætlaði ekki að fara að þjálfa aftur í kvennaboltanum en sagði það einhvers staðar að það væri þá bara landsliðið sem kæmi til greina. Það snýst ekkert um að þjálfa konur, það er umhverfið og umgjörðin sem fer í taugarnar á mér. Það hefur ekkert með það að gera að ég vilji ekki þjálfa konur.“
,,Ég er mjög stoltur af hvernig þetta hefur tekist hjá kvennalandsliðinu. Ég lagði mitt af mörkum að hækka standardinn þar. Bæði í kringum liðið og inni í liðinu.“
Þrátt fyrir að vera ánægður með umgjörðina hjá kvennalandsliðinu má ekki segja það sama um Pepsi-deild kvenna sem virðist vera á sama stað og fyrir tíu árum.
Freyr fer yfir peningalegu hlið málsins en það er afar erfitt að reka kvennafélag í plús og án þess að tapa peningum.
Lið hafa gert það að hefð að taka peninga af kvennaflokknum og fært yfir í karla og ræðir Freyr það mál ítarlega.
,,Í Pepsi-deildinni erum við á sama stað og fyrir tíu árum. Það er engin breyting ef þú skoðar áhorfendafjölda, það eru engir þjálfarar í fullri vinnu nema kannski Donni. Ég og Beta vorum bæði í fullu starfi hjá Val á sínum tíma.“
,,Þetta er erfið umræða. Þú verður að passa þig hvað þú segir og ég líka en maður á bara að vera heiðarlegur. Þetta snýst um samfélagið sem þú býrð í og hvað þú vilt í samfélaginu sem þú býrð í. Það verður aldrei þannig að fólk verði sammála um þetta. Ef þú horfir bara á peningalegu hliðina í núinu þá er þetta glórulaust. Þú ert að taka peninga úr einu hólfinu og færa þá í annað.“
,,Ef þú horfir á Steypustöðina. Þá ertu með markaðsdeildina sem eyðir bara peningum og svo steypubílana sem eru að búa til peninga en það þarf peninga í markaðsdeildina til að láta þetta snúast. Við erum með svona samfélagslega skyldu á Íslandi gagnvart konum, börnum, stúlkum og drengjum, það er einn partur af þessu.“
Freyr er þó viss um að tekjurnar í kvennaboltanum muni hækka á næstu árum og þarf Ísland að passa það að vera þá enn í fremstu röð.
,,Það sem skiptir mig mestu máli er að ég veit, einn daginn munu tekjurnar í kvennaboltanum hækka og þá þurfum við að passa okkur á að vera í fremstu röð til þess að geta tekið þátt í því. Hvenær það gerist hins vegar, eftir fimm, tíu, fimmtán eða tuttugu, það er erfitt að segja.“
,,2007 þegar Margrét Lára er stjarna hjá Íslandi þá var svo auðvelt að fá sponsora fyrir kvennaliðið, þetta er reyndar 2007. Þá var kvennaliðið rekið í plús en það er undantekning.“
,,Það er hægt en það er rosalega erfitt. Ég hef alltaf sagt það, hafið umgjörðina í lagi, leggið metnað í að leikmenn fái rétta og góða þjálfun og geti verið í fremstu röð. Setið minni fjármuni í að þau séu að fá laun, íbúðir og bíla.“