Hermann Hreiðarsson bálillur eftir leik Fylkis og ÍBV
Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis og fyrrverandi leikmaður ÍBV og íslenska landsliðsins, var bálillur eftir tap sinna manna gegn ÍBV í Pepsi-deild karla í fótbolta í dag. Tók hann Hannes Gústafsson, stjórnarmann ÍBV, hálstaki.
Vísir greinir frá þessu og birtir myndir af atvikinu.
Í samtali við Vísi vildi Hannes ekki gera mikið úr atvikinu, sagði að Hermann hefði átt það til að taka menn hálstaki og hann erfi þetta ekki við hann.
„Hermann tók mig hálstaki. Hann hefur átt það til að gera þetta við marga í gegnum tíðina og hann gerði það aftur núna. Ætli hann hafi ekki bara verið tapsár,“ sagði Hannes og bætti við að þetta væri hans stíll.
„Mér þykir samt jafnvænt um hann og áður. Menn bregðast bara misvel við tapi. Ég vona bara að hann noti orkuna sína frekar í að halda Fylki gangandi. Ég óska honum velfarnaðar í því.“
Myndir og nánari umfjöllun má sjá á vef Vísis.