Framherjinn Emiliano Sala er týndur þessa stundina en hann var farþegi í flugvél sem ferðaðist frá Nantes til Cardiff á dögunum.
Flugvélin hvarf óvænt af radar um kvöldið og er í raun alveg óljóst hvað hefur átt sér stað.
Lögreglan á Englandi leitaði að Sala og flugmanninum David Ibbotson í þrjá daga en leitin skilaði engum árangri.
Það ríkir mikil sorg í knattspyrnuheiminum en Sala var nýbúinn að skrifa undir samning við Cardiff.
Sky Sports greinir nú frá því að Sala hafi sjálfur leitað að flugi áður en honum var boðið sæti í lítilli einkaflugvél.
Það var Jack McKay, leikmaður Cardiff, sem bauð Sala sæti í flugvélinni fyrir fyrstu æfingu daginn eftir.
McKay er 22 ára gamall sóknarmaður Cardiff en hann hefur ekkert komið við sögu á tímabilinu.
Faðir hans, Willie McKay er umboðsmaður og spilaði stórt hlutverk í að koma Sala frá Nantes til Cardiff fyrir 15 milljónir punda.