Eins og flestir vita hefur lögreglan leitað að framherjanum Emiliano Sala undanfarna daga.
Sala var farþegi í flugvél sem hrapaði á dögunum en hún var á leið frá Nantes til Cardiff.
Sala var keyptur til Cardiff frá Nantes og varð um leið dýrasti leikmaður í sögu félagsins. Hann kostaði 15 milljónir punda.
Lögreglan hefur leitað að flugvélinni og farþegum hennar án árangurs og hefur leit nú verið hætt.
Engar vísbendingar hafa fundist varðandi hrapið en Sala var um borð ásamt flugmanninum David Henderson.
Lögreglan greindi frá því fyrr í dag að leit að vélinni og farþegum hennar væri hætt. Það er því útlit fyrir að þeir verði ekki fundnir.
Fjölskylda Sala hefur nú rætt við fjölmiðla og biðja lögregluna vinsamlegast að halda áfram að leita.
,,Ég er mjög ringluð. Það eina sem ég vil er að bróðir minn verði fundinn og flugmaðurinn,“ sagði systir Sala, Romina.
,,Við biðjum þá um að setja sig í okkar spor, í hjörtu fjölskyldunnar. Gerið það, ekki hætta að leita. Ég veit að þeir eru lifandi og eru að bíða eftir okkur.“
Faðir Sala, Horacio er á sama máli og Romania og vonar innilega að leitin haldi áfram.
,,Við biðjum þá um að halda áfram að leita. Við trúum ekki að þeir séu að hætta,“ sagði Horacio.
,,Við biðjum þá vinsamlegast um að halda leitinni áfram. Ég trúi ekki að flugvél geti horfið án þess að það séu vísbendingar um hvar hún er.“