Sævar Þór Rafnsson er líklega einn harðasti stuðningsmaður Manchester United, á Íslandi og þó víðar væri leitað. Sævar deildi í dag skemmtilegu innleggi á Facebook.
Sævar og barnsmóðir hans eignuðust myndarlegan pilt á gamlársdag, sá dagur er nokkuð merkilegur í samhengi við sögu Manchester United, sem er sigursælasta félag Englands. Sir Alex Ferguson sem var stjóri félagsins í 27 ár fæddist nefnilega á þeim degi árið 1941.
,,Þessi drengur fékk nafnið Alex og verður kallaður Sir ef ég fæ einhverju ráðið um þetta,“ skrifaði Sævar í innleggi sínu á Facebook í stuðningsmannahóp Manchester United á Íslandi. ,,Hann fæddist 31 desember á afmælisdeginum hans Sir Alex.“
Sir Alex Ferguson er einn allra merkilegasti maðurinn sem tengst hefur fótboltanum, hann hafði einstakt lag á einu stærsta félagsliði í heimi. Hann vann ensku úrvalsdeildina, þrettán sinnum, magnað afrek.
Blaðamaður ræddi málið við Sævar sem var afar stoltur af pilti og nafninu en sagan á bak við það er þó ögn flóknari, en að Sævar hafi fengið sínu fram til að skíra hann í höfuðið á hinum merkilega Skota.
,,Málið var nú þannig að barnsmóðirinn hafði viljað þetta nafn og það fyrir löngu síðan, það fannst mér skemmtilegt, ég er svakalegur stuðningsmaður United. Ég klæði alla hérna í treyjur yfir hverjum einasta leik. Litli drengurinn ákvað svo bara að koma í heiminn klukkan 12:44 á gamlársdag, sem er auðvitað afmælisdagur gamla karlsins. Auðvitað hjálpaði Sir Alex Ferguson til að velja þetta nafn
,,Hann er ekkert skírður í höfuðið á honum en þetta er skemmtileg tilviljun.“
Þegar United mætti Newcastle í fyrsta leik ársins skutlaði Sævar öllum í treyju. Það skilaði sínu, United vann góðan sigur undir stjórn Ole Gunnar Solskjær ,,Systir mín kom í heimsókn og sá þennan sigur hjá mínum mönnum, kærastan fór sömu leið og dóttir mín. Hér fara allir í búning á leikdegi.“