Wayne Rooney, fyrrum fyrirliði enska landsliðsins, var handtekinn á flugvelli í Washington þann 16. desember.
Rooney var handtekinn fyrir ölvun á almannafæri en hann þótti haga sér heldur illa eftir ferðalag frá Sádí Arabíu.
Fjölmiðlafulltrúi Rooney hefur nú gefið út yfirlýsingu og staðfestir þar hvað átti sér stað.
,,Wayne Rooney var handtekinn og var haldið á Dulles flugvellinum eftir langt ferðalag frá Sádíu Arabíu,“ sagði í yfirlýsingunni.
,,Í fluginu þá tók Wayne inn ráðlagðan skammt af svefntöflum og blandaði því við áfengi og var því í slæmu standi eftir lendingu.“
,,Lögreglan kom upp að honum og var hann handtekinn. Hann fékk venjulega sekt og var brátt látinn laus á flugvellinum.“
,,Þetta mál er nú búið. Wayne vill koma á framfæri þakklæti fyrir hvernig málið var leyst. Við munum ekki tjá okkur frekar.“