Hræðilegt myndband var birt í dag af fyrrum leikmanni Aston Villa á Englandi, Riccardo Calder.
Calder var fyrr í mánuðinum dæmdur í níu mánaða fangelsi eftir að hafa ráðist á 24 ára gamla konu á bílastæði.
Samkvæmt fréttum þekkti Calder konuna en þau hittust fyrst á næturklúbbi en lentu svo í rifrildi morguninn eftir.
Calder var óánægður með að konan hafi klesst lítillega á bifreið sína og byrjaði að öskra og sparka í bíl hennar.
Konan svaraði með því að klessa nokkuð hressilega á bíl Calder sem brást mjög reiður við.
Það endaði með því að Calder náði að opna hurð konunnar og þá fengu höggin og spörkin að fljúga.
Konan grátbað Calder um að hætta að ráðast á sig en hann hélt áfram áður en hann yfirgaf vettvang.
Calder er 22 ára gamall varnarmaður en hann var síðast á mála hjá Inverness í Skotlandi en var rekinn þaðan.
Hann er uppalinn hjá Aston Villa og spilaði leiki fyrir U17 landslið Englands. Hann er nú á leið í fangelsi.
Myndband af atvikinu má sjá hér en við vörum viðkvæma við.