Pablo Perez, fyrirliði Boca Juniors, er mjög ánægður með að leikur liðsins við River Plate hafi ekki farið fram um helgina.
Ráðist var á rútu Boca fyrir leikinn og meiddust þrír leikmenn liðsins. Perez þurfti á læknisaðstoð að halda eftir að hafa fengið glerbrot í augað.
Ákveðið var að lokum að fresta leiknum en óvíst er hvenær hann fer fram. Um er að ræða úrslitaleik Copa Libertadores.
,,Ég get ekki spilað á velli þar sem ég hefði getað dáið. Hvernig geturðu spilað á velli þar sem öryggisgæslan er engin?“ sagði Perez.
,,Hvað ef við hefðum spilað leikinn og unnið hann? Hver hefði komið okkur burt?“
,,Fólk var klikkað áður en við stigum á völlinn, ímyndið ykkur ef við hefðum unnið á þeirra velli.“
,,Hvað hefði gerst? Þeir hefðu getað drepið mig. Ég á þrjár dætur og eiginkonu. Elsta dóttir mín faðmaði mig grátandi þegar ég kom heim.“