Jake Humphrey þáttastjórnandi hjá BT Sport hefur fengið mikið lof fyrir starfið sem hann hefur unnið á ferli sínum.
Humphrey er afar vinsæll í starfinu en hann stýrði þætti á laugardaginn þar sem Rio Ferdinand var sérfræðingur.
Ferdinand sagði frá því að í framtíðarplönum sínum, hafi það alltaf verið á blaði að vera þjálfari. Það hafi hins vegar breyst þegar eiginkona hans lést eftir baráttu við krabbamein.
Rebecca lést eftir baráttu við krabbamein árið 2015 aðeins 34 ára gömul. Hún hafði séð um heimili þeirra að mestu og verið kletturinn fyrir börnin.
,,Ég hefði elskað það að fara í þjálfun, og jafnvel verða stjóri,“ sagði Ferdinand.
,,Það breyttust hins vegar aðstæður í lífi mínu, þú verður að gera það besta úr þessu.“
Humphrey virtist ekki átta sig á því að þarna væri Ferdinand að tala um þetta erfiða áfall sem fjölskylda hans varð fyrir. ,,Það sem þú ert að segja að þú færð vel borgað fyrir að horfa á fótbolta hérna, það er einfaldara.“
Eftir þetta hefur Humphrey fengið að heyra það á samfélagsmiðlum.