Victor Anichebe, fyrrum leikmaður Everton og West Brom, reynir nú að ná í fyrrum liðsfélaga sinn.
Anichebe er þrítugur framherji en hann leikur í dag með liði Beijing Enterprises í Kína.
Hann spilaði lengst með Everton á ferlinum en hann er uppalinn hjá félaginu. Síðar samdi hann við West Brom og svo Sunderland.
Anichebe er þessa dagana að reyna að ná í Stephane Sessegnon sem var liðsfélagi hans hjá West Brom.
Sessegnon er 34 ára gamall vængmaður en hann er liðsfélagi Kára Árnasonar hjá Genclerbirligi í Tyrklandi.
Anichebe segir að Sessegnon skuldi sér 10 þúsund pund sem hann fékk lánuð á sínum tíma.
,,Þessi gaur, Stephane Sessegnon bað mig um að lána sér 10 þúsund pund. Ég hef reynt að fá þetta til baka lengi,“ sagði Anichebe.
,,Hann hunsar símtölin mín, skilaboð og hvernig sem ég reyni að ná í hann. Hann fékk meira að segja 10 þúsund í láni hjá Youssuf Mulumbu en borgaði ekki til baka.“
,,Þetta er vandamálið með okkar afrísku bræður. Þeir þykjast lifa frábærum lífsstíl en fá svo lánað hjá öðrum en borga ekki til baka.“
,,Ef einhver sér hann eða getur haft samband við hann, segið honum að hafa samband við mig eða senda mér helvítis peninginn. Níski andskoti.“