Hlaðvarpsþátturinn, 90 mínútur hefur hafið göngu sína en um er að ræða þátt sem Hörður Snævar Jónsson, ristjóri 433.is stýrir.
Rætt verður um fótbolta við áhugaverða gesti í vetur, farið verður um víðan völl. Fyrsti gestur þáttarins er Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins og fyrrum þjálfari kvennalandsliðsins.
Freyr ræddi um ýmislegt í þættinum og á meðal annars tíma sinn hjá Val en þar má segja að Freyr hafi orðið að þeim öfluga þjálfara sem hann er í dag.
24 ára gamall fór Freyr að þjálfa yngri flokka Vals en tveimur árum síðar var hann kominn í að þjálfa meistaraflokk kvenna hjá félaginu. Þeir sem unnu með Frey á þessum árum, sáu hversu mikinn metnað hann lagði í starf sitt.
Hann tók meðal annars þá meðvituðu ákvörðun að hætta að mestu leyti að fara niður í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Þar var möguleiki að rekast á leikmenn liðsins en Freyr vildi láta taka sig alvarlega.
,,Þarna er ég 26-27 ára gamall, þarna þarf ég að taka ákvörðun um að verða fullorðinn,“ sagði Freyr í þættinum.
,,Þarna þurfti ég bara að hætta að fara niður í miðbæ, þetta var meðvituð ákvöðrun. Ef ég ætlaði að láta taka mig alvarlega, þá var þetta bara búið.“
,,Ég fagnaði með þegar við unnum titla, þarna minnkaði það að ég fór að skemmta mér með vinum mínum. Ég var búinn að taka það út frá 19-23 ára.“
Ljóst er að þessi ákvöðrun hans hefur borgað sig, Freyr varð þjálfari kvennalandsliðsins og vann frábært starf, í dag er hann svo aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins.
Freyr er í dag 36 ára gamall og er einn fremsti þjálfari Íslands, þrátt fyrir ungan aldur.
Þáttinn má heyra í heild hér að neðan.