Vichai Srivaddhanaprabha er látinn 60 ára að aldri. Þetta hefur enska úrvalsdeildarfélagið Leicester City staðfest.
Srivaddhanaprabha var eigandi Leicester og en hann eignaðist meirihlut í félaginu fyrir átta árum.
Í gær var greint frá því að þyrla Srivaddhanaprabha hafi hrapað fyrir utan heimavöll Leicester eftir leik við West Ham í efstu deild.
Eigandinn var vanur að yfirgefa svæðið á þyrlu sinni að leik loknum en hún lenti yfirleitt á miðjum King Power vellinum.
Hann var einn af fimm sem voru um borð í þyrlunni í gær en Leicester hefur staðfest að enginn hafi lifað slysið af.
Srivaddhanaprabha var gríðarlega vinsæll hjá Leicester en félagið vann ensku úrvalsdeildina fyrir rúmlega tveimur árum er hann var eigandi félagsins.