Joe Hart, markvörður Burnley, hefur tjáð sig um athyglisverðan tíma sinn hjá liði Torino á Ítalíu.
Hart lék með Torino á láni tímabilið 2016-2017 og lék er liðið tapaði stórt 5-0 á útivelli gegn Napoli.
Stuðningsmenn Torino eru ástríðufullir og heimtuðu fund með leikmönnum eftir tapið.
Þeir náðu svo að hitta leikmenn liðsins eftir leikinn og tóku yfir liðsfundinn. Það er eitthvað sem sést ekki á Englandi.
,,Það sem ég elskaði mest við menningu ítalska fótboltans voru stuðningsmennirnir, þeir réðu miklu hjá félaginu – á góðan hátt,“ sagði Hart.
,,Einu sinni þá fengum við á okkur fimm mörk á útivelli gegn Napoli. Það er löng leið frá Torino en um 300 stuðningsmenn mættu og skemmtu sér allan leikinn.“
,,Þeir voru þarna fyrir okkur og það voru nokkrir leikmenn sem þökkuðu þeim ekki fyrir komuna eftir leikinn því þeir voru svekkttir.“
,,Stuðningsmennirnir nýttu sér þá sína stöðu í félaginu og heimtuðu fund með leikmönnunum.“
,,Þeir biðu eftir okkur hjá bílastæðunum. Þeir tóku yfir liðsfundinn okkar. Þeir ræddu við fyrirliðann okkar og tjáðu honum að þetta væri óásættanlegt.“
,,Við þurftum allir að standa þarna og hlusta. Við báðum þá afsökunar því þeir höfðu rétt fyrir sér.“