Það er engin ein rétt leið til að springa út sem knattspyrnumaður, margir gera það snemma og verða fljótt stjörnur. Aðrir taka sér tíma í að vaxa og dafna áður en stóri draumurinn verður að veruleika. Allir knattspyrnumenn eiga sér þann draum að verða atvinnumenn í sinni íþrótt, margir af bestu knattspyrnumönnum Íslands verða mjög ungir að atvinnumönnum. Aðrir blómstra síðar, margir af fremstu knattspyrnumönnum síðustu ára, hafa farið þá leið. DV fékk til liðs við sig öfluga menn til að velja knattspyrnumenn sem fóru leiðina erfiðu, sem börðust fyrir sínu til að komast út í hinn stóra heim. Listinn af nöfnum var langur og þurftu sumir frá að hverfa.
Guðni Bergsson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 21 árs
Varnarmaðurinn var alltaf öflugur sem ungur drengur en ekki var víst að hann myndi velja fótboltann. Guðni var mjög efnilegur í handbolta og hefði getað valið þá leið. Guðni stoppaði stutta stund í atvinnumennsku 21 árs gamall en hann fór þó ekki í hana af alvöru fyrr en tveimur árum síðar. Guðni komst að hjá stórliði Tottenham sem þótti merkilegur áfangi. Hann gekk menntaveginn samhliða fótboltanum og kláraði nám í lögfræði þegar hann atvinnumaður. Guðni var atvinnumaður í 15 ár og lék 80 A-landsleiki, hann er í dag formaður Knattspyrnusambands Íslands.
Eyjólfur Gjafar Sverrisson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 21 árs
Saga Eyjólfs er í raun sú ótrúlegasta sem sést hefur í íslenskum fótbolta, en hann var í neðri deildum hér á landi með Tindastóli. Ekkert gaf til kynna að Eyjólfur yrði að stjörnu fyrr en hann fékk tækifæri með U21 árs landsliðinu. Hann skoraði fernu gegn Finnlandi árið 1989 sem breytti öllu. Stórlið Stuttgart festi kaup á Eyjólfi sem átti fjórtán ára feril í atvinnumennsku. Hann er goðsögn hjá Hertha Berlin þar sem hann lauk ferli sínum árið 2003 eftir átta ára veru í Berlín. Hann lék 66 landsleiki og var fyrirliði liðsins um tíma.
Andri Rúnar Bjarnason
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 27 ára
Þrátt fyrir að Andri sé á fyrsta ári í atvinnumennsku þá hefur þetta fyrsta ár verið farsælt. Saga hans er í raun lygileg, allt stefndi í að Andri yrði bara gutlari í neðri deildum. Hann virkaði latur og hugsaði ekki um sig eins og íþróttamann. Hjá Grindavík fann hann hins vegar neistann og setti allt í botn. Á síðasta ári jafnaði hann markametið í efstu deild og fór til Helsingborg í Svíþjóð, þar hefur hann raðað inn mörkum og einnig spilaði hann sína fyrstu landsleiki á þessu ári. Magnaðar breytingar á stuttum tíma.
Viðar Örn Kjartansson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 23 ára
Saga Viðars er merkileg, hann var mikið efni á yngri árum en meiðsli og vondar ákvarðanir seinkuðu frama hans. Viðar var haustið 2012 að leita sér að liði hér á landi, en ekkert lið virtist hafa áhuga á honum þegar Fylkir tók sénsinn. Það bar árangur, Viðar raðaði inn mörkum sem varð til þess að hann var keyptur til Noregs. Í Noregi raðaði framherjinn inn mörkum og þaðan lá leiðin til Kína. Viðar lék svo í Svíþjóð um stutt skeið þar sem hann skoraði mikið og var hann þá keyptur til Ísrael. Eftir tvö góð ár þar var Viðar keyptur til Rússlands í sumar. Frábær ferill á stuttum tíma.
Matthías Vilhjálmsson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 24 ára
Matthías hafði verið yfirburðaleikmaður á Íslandi með FH áður en hann fékk tækifæri erlendis, fyrst um sinn voru það lánsdvalir áður en Start í Noregi fékk þennan öfluga leikmann. Matthías var að verða 26 ára þegar hann var atvinnumaður að fullu, þessi nagli af Vestfjörðum gafst aldrei upp. Hefur hann nú í rúm þrjú ár spilað fyrir Rosenborg, sem er langstærsta félag Noregs. Þar hefur hann upplifað góða tíma. Matthías hefur ekki náð að koma sér inn í A-landsliðið af krafti en hann á 15 landsleiki að baki.
Rúnar Kristinsson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 25 ára
Rúnar hefði getað farið út miklu fyrr en kaus að bíða. Hann hafði hæfileika en þroskaðist líkamlega aðeins seinna en jafnaldrar hans. Hann treysti aldrei á hraða eða styrk, en það var leikskilningur Rúnars sem gerði hann að frábærum knattspyrnumanni. Leikjahæsti leikmaður í sögu Íslands og átti frábæran feril sem atvinnumaður. Lék í tólf ár erlendis og hvar sem Rúnar kom við þá skildi hann eftir sig góðar minningar.
Hjálmar Jónsson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 22 ára
Drengurinn frá Egilsstöðum var ekki mikið í sviðsljósi hér á landi, hann lék í tvö ár með Keflavík áður en útlönd kölluðu. Hjálmar lék í 14 ár með einu og sama liðinu í atvinnumennsku, hann var á mála hjá IFK Gautaborg í Svíþjóð til ársins 2016. Hjálmar er goðsögn hjá félaginu en oft átti hann í erfiðleikum með íslenska landsliðinu. Hjálmar lék 21 leik með A-landsliði Íslands á sínum ferli.
Tryggvi Guðmundsson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 24 ára
Það er ekki hægt að tala um að Tryggvi hafi sprungið seint út en ferill hans hafði náð flugi nokkrum árum áður en hann hélt út. Var hann stjarna í sigursælu liði ÍBV áður en hann hélt í atvinnumennsku eftir tímabilið 1997. Hann var atvinnumaður í sex ár áður en hann kom aftur heim, hjá FH og ÍBV varð hann að markahæsta leikmanni í sögu efstu deildar á Íslandi. Tryggvi minnti einnig reglulega á sig með A-landsliðinu þar sem hann lék 42 leiki.