Það er engin ein rétt leið til að springa út sem knattspyrnumaður, margir gera það snemma og verða fljótt stjörnur. Aðrir taka sér tíma í að vaxa og dafna áður en stóri draumurinn verður að veruleika. Allir knattspyrnumenn eiga sér þann draum að verða atvinnumenn í sinni íþrótt, margir af bestu knattspyrnumönnum Íslands verða mjög ungir að atvinnumönnum. Aðrir blómstra síðar, margir af fremstu knattspyrnumönnum síðustu ára, hafa farið þá leið. DV fékk til liðs við sig öfluga menn til að velja knattspyrnumenn sem fóru leiðina erfiðu, sem börðust fyrir sínu til að komast út í hinn stóra heim. Listinn af nöfnum var langur og þurftu sumir frá að hverfa.
Hannes Þór Halldórsson
Fyrst í atvinnumennsku – 28 ára
Augljósasta dæmið í íslenskum fótbolta þegar það kemur að því að gefa ekki drauma sína upp á bátinn. Númi í neðstu deild taldi sig ekki hafa not fyrir fyrir Hannes fyrir ekki svo mörgum árum. Hann gafst aldrei upp þrátt fyrir meiðsli og bakslag, fór í neðri deildir á Íslandi. Vann sig upp hægt og rólega, endaði í atvinnumennsku árið 2012, þá lánaður til Brann. Var svo seldur frá KR árið 2014 og hefur verið í atvinnumennsku síðan þá. Hann hefur staðið í marki Íslands á EM í Frakklandi og HM í Rússlandi. Þénar nú vel í Aserbaídsjan.
Alfreð Finnbogason
Fyrst í atvinnumennsku – 21 árs
Ef það mætti líkja Alfreð við blóm, þá var hann alltaf blóm sem flestir héldu að mynda springa út á endanum. Það komu hins vegar tímabil þar sem fólk fór að efast, hann var lengur en aðrir að festa sig í sessi í meistaraflokki Breiðabliks og þá hélt hann í nám til Ítalíu og setti fótboltann hér á landi í pásu. Hann kom svo heim og varð stjarna Breiðabliks á stuttum tíma, tvítugur var hann í liði Blika sem varð bikarmeistari og svo var hann langbesti leikmaður Pepsi-deildarinnar sumarið 2010, þegar Breiðablik vann sinn eina Íslandsmeistaratitil, til þessa. Hann hefur síðan 2011 leikið erlendis og átt frábæran feril.
Birkir Már Sævarsson
Fyrst í atvinnumennsku – 23 ára
Vindurinn af Hlíðarenda hefur átt frábæran feril, í raun hefur ferill hans verið eins og í lygasögu miðað við það sem flestir áttu von á. Birkir var ekki talinn neitt sérstakt efni þegar hann ólst upp en þegar upp kom í meistaraflokk þá fór að sjást að þarna gæti orðið öflugur leikmaður á ferð. Hann varð Íslandsmeistari með Val árið 2007 sem lykilmaður, ári síðar hélt hann í atvinnumennsku þar sem hann var í tíu ár. Birkir á að baki 84 A-landsleiki þar sem hann hefur leikið stórt hlutverk í besta árangri í sögu landsliðsins.
Kári Árnason
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 22 ára
Kári var alltaf öflugur leikmaður en hann ákvað að ganga menntaveginn framan af, ólíkt mörgum öðrum sem veðja strax á fótboltann. Kári hefði vel getað farið fyrr í atvinnumennsku en hann hélt fyrst í nám í Bandaríkjunum, þar spilaði hann einnig fótbolta og vakti athygli. Eftir öfluga frammistöðu með Víkingi árið 2004 hélt hann til Djurgarden í Svíþjóð. Kári hefur átt frábæran feril í atvinnumennsku sem hefur nú verið í gangi í 14 ár, hann leikur nú í Tyrklandi og hefur að auki átt frábæran feril með íslenska landsliðinu.
Hermann Hreiðarsson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 23 ára
Harðhausinn frá Vestmannaeyjum var í nokkur ár að koma sér fyrir í meistaraflokki ÍBV áður en hann varð að stjörnu. Hermann var alltaf harður í horn að taka en þótti aðeins of villtur. Eftir að tókst að beisla krafta Hermanns á réttan hátt, þá sprakk hann út. Crystal Palace ákvað að kaupa Hermann frá ÍBV árið 1997, það ár varð ÍBV einmitt Íslandsmeistari. Hermann lék í 15 ár í atvinnumennsku auk þess sem hann var lykilmaður og fyrirliði íslenska landsliðsins.
Grétar Rafn Steinsson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 23 ára
Siglfirðingurinn var alltaf nokkuð efnilegur en hann lék iðulega sem miðjumaður. Grétar sá að það gæti orðið erfitt að komast í fremstu röð sem slíkur. Hann ákvað því í kringum tvítugt, hjá ÍA á Akranesi, að gerast bakvörður og það reyndist besta ákvörðun sem Grétar gat tekið. Hann átti 13 ár í atvinnumennsku en hans besti tími var með Bolton í ensku úrvalsdeildinni. Hann átti flottan feril með landsliðinu og starfar í dag sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood Town í þriðju efstu deild Englands.
Ívar Ingimarsson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 22 ára
Varnarbuffið frá Stöðvarfirði átti frábæran feril, hann hélt ungur í borg óttans, Reykjavík, og lék með Val. Hann fór svo tvítugur til Vestmannaeyja þar sem hann þróaði leik sinn og varð að stjörnu og 22 ára hélt Ívar í atvinnumennsku. Hann lék í 13 ár á Englandi og átti ótrúlegan feril, bestu árin hans voru hjá Reading þar sem hann var í átta ár og átti góð ár í ensku úrvalsdeildinni. Ívar lék 30 A-landsleiki á níu árum.
Brynjar Björn Gunnarsson
Fyrsta ár í atvinnumennsku – 22 ára
Það áttu ekkert alltof margir von á því að Brynjar Björn yrði atvinnumaður í fótbolta. Hann gat hlaupið mikið og barðist vel en boltatækni og slíkt var aldrei hans besti vinur. Brynjar sprakk hins vegar út nokkuð fljótt eftir tvítugt og náði að búa sér til ótrúlegan feril. Hann var atvinnumaður í 15 ár, átti góð ár í ensku úrvalsdeildinni. Brynjar virtist þó aldrei lifa eins og fólk ímyndar sér að atvinnumaður í fótbolta geri. Hann keyrði ekki um á dýrum bílum og þegar hann kom heim til Íslands tók hann oftar en ekki strætó. Brynjar lék 74 A-landsleiki og stóð yfirleitt fyrir sínu.