Kathryn Mayorga er nafn sem fáir hafa heyrt en hún stígur fram í ítarlegu viðtali við Spiegel og ræðir um nauðgun sem hún sakar Cristiano Ronaldo, einn besta knattspyrnumann allra tíma um.
Mayorga segir að Ronaldo hafi nauðgað sér árið 2009, atvikið á að hafa átt sér stað í Las Vegas.
Þar var Ronaldo í sumarfríi með vinum sínum áður en hann samdi við Real Madrid og varð dýrasti knattspyrnumaður í heimi.
Lýsingarnar frá Mayorga eru afar óhugnanlegar en þar fer hún yfir málið í öllum smáatriðum.
Ronaldo harðneitar þessum sögum en það gerði hann í beinni útsendindingu á Instagram.
,,Nei, nei. Það sem þeir sögðu í dag eru falskar fréttir. Þeir eru að reyna að koma sér í umræðuna með mínu nafni. Þeir vilja verða frægir, þetta er hluti af mínu lífi,“ sagði Ronaldo.
Hann hefur skipað lögfræðingum sínum að lögsækja blaðið og umfjöllun þess.