Lögreglan í Las Vegas hefur ákveðið að opna rannsókn á meintri nauðgun knattspyrnustjörnunnar Cristiano Ronaldo á ný.
Fyrrum fyrirsætan Kathryn Mayorga var í ítarlegu viðtali við Spiegel á dögunum þar sem hún sakaði Ronaldo um að hafa nauðgað sér á hótelherbergi árið 2009.
Ronaldo hefur sjálfur svarað fyrir sig en hann gerir lítið úr þessum ásökunum í myndbandi sem hann birti á Instagram.
,,Nei, nei nei nei, hvað eru þeir að segja í dag? Falsaðar fréttir,“ sagði Ronaldo í myndbandinu sem hann birti.
,,Fólk vill ná sér í frægð með því að nota mitt nafn. Það er eðlilegt. Ég er ánægður og það er allt í góðu.“
Lögreglan í Las Vegas hefur ákveðið að opna málið á ný og mun rannsaka hvort eitthvað hafi átt sér stað á milli Ronaldo og Mayorga.
Rannsókninni var lokað árið 2010 en Mayorga segir nú að hún hafi verið of hrædd við að fara lengra með málið vegna frægðar Ronaldo. Hún óttaðist að vera niðurlægð á heimsvísu.
Myndir hafa nú birst af þeim saman á næturklúbbi en nauðgunin á að hafa átt sér stað síðar um kvöldið á hótelherbergi Ronaldo.
Mayorga á að hafa neitað að hafa mök með Ronaldo og segir að hann hafi tekið þeim fréttum illa og brást við með ofbeldi.
Ronaldo hefur staðfest það að þau hafi sofið saman en segir að það hafi verið með samþykki beggja aðila. Mayorga tekur ekki undir þau ummæli.