Henrikh Mkhitaryan, leikmaður Arsenal, segir að það hafi mikið breyst eftir komu Unai Emery til félagsins í sumar.
Emery tók við Arsenal af Arsene Wenger en liðið hefur byrjað deildina á tveimur tapleikjum gegn Manchester City og Chelsea.
Mkhitaryan segir að leikstíll liðsins sé allt annar undir stjórn Emery sem þarf tíma til að ná sínum hugmyndum í gegn.
,,Við verðum að halda áfram að vinna því við erum með nýjan þjálfara, nýja hugmyndafræði og viljum spila öðruvísi en undir Wenger,“ sagði Mkhitaryan.
,,Hann vill spila fótbolta og stjórna leikjum og það er það sem við erum að gera, við erum ekki bara að sparka boltanum langt.“
,,Það er ekki auðvelt en það er það sem við erum að reyna og það sem þjálfarinn vill frá okkur.“