Guðmundur Benediktsson, fyrrum landsliðsmaður, var gestur í hlaðvarpsþætti Hjörvars Hafliðasonar, Dr. Football í dag.
Gummi Ben þekkir fótboltann inn og út en hann var sjálfur mjög góður knattspyrnumaður á sínum tíma.
Hann átti sína hetju er hann var yngri en Gummi segir að Diego Maradona hafi verið sinn uppáhalds leikmaður er hann var yngri.
Það er þó erfitt fyrir hann að velja á milli Maradona og Lionel Messi þegar kemur að bestu leikmönnum sögunnar.
,,Ég held að maður verði að segja Maradona. 1986 var ég 12 ára þegar Maradona tekur HM yfir og vinnur titilinn fyrir Argentínu,“ sagði Gummi um hver var hans uppáhalds leikmaður.
,,Það sem sá gæi gerði í þeirri keppni og ekki bara þeirri keppni. Ég held að hann hafi fyrst komið í landsliðið 1982 og ég man glefsur úr þeirri keppni á Spáni en þetta var gæi sem var með eitthvað allt annað og miklu meira en maður hafði séð.“
,,Ég sveifla á milli hans og Lionel Messi sem bestu leikmenn sögunnar. Þá tala ég um bestu fótboltamenn því Cristiano Ronaldo á klárlega heima þarna í þessari upptalningu en það er meira fótboltatalent í þessum leikmönnum. Ronaldo er einn ótrúlegasti íþróttamaður sem maður hefur séð.“