Guðmundur Benediktsson, fyrrum landsliðsmaður, var gestur í hlaðvarpsþætti Hjörvars Hafliðasonar, Dr. Football í dag.
Gummi Ben er einn vinsælasti sjónvarpsmaður Íslands í dag en hann var góður knattspyrnumaður á sínum tíma.
Gummi var efnilegur leikmaður er hann hóf ferilinn með Þór á Akureyri en hann samdi við Germinal Ekeren í Belgíu árið 1991.
Fleiri lið höfðu áhuga á að fá Gumma í sínar raðir er hann var 15 ára gamall áður en hann sleit krossband og þá minnkuðu möguleikarnir.
,,Þetta er líklega árið 1989, 15 ára og það kom svaka áhugi þarna. Það kom heil bylgja,“ sagði Gummi Ben.
,,Ég spilaði á Norðurlandarmóti á Englandi með U16 og það myndaðist áhugi þarna um tíma, Tottenham, Arsenal, Everton og slatti af liðum í viðbót sem höfðu samband og sögðust hafa áhuga.“
,,Sömuleiðis Stuttgart en svo gerist það að 15 ára þá slít ég krossband og þá hringdu þessi ensku lið ekki aftur. Þegar þau heyrðu að þessi ungi drengur væri búinn að slíta krossband. Á þeim tíma þá var ferillinn nánast búinn. Það var bara takk fyrir komuna, þú verður að snúa þér að einhverju öðru.“
,,Eftir þessi krossbandaslit þá sátu bara tvö lið eftir. Það var Germinal Ekeren sem ég skrifaði undir hjá hálfu ári síðar og Stuttgart. Af einhverjum ástæðum þá ákvað ég að skrifa undir í Belgíu frekar en að fara til Þýskalands.“
,,Í hvert skipti sem ég hitti Ásgeir Sigurvinsson, ég hitti hann svona einu sinni, tvisvar á ári þá ákveður hann að minnast á þetta, hvers konar ákvörðun þetta hafi verið Gummi, að koma ekki til Stuttgart.“